Háskóli Íslands

Bótaréttur I og II

Um rannsóknina

Ritin Bótaréttur I og Bótaréttur II voru bæði gefin út árið 2015 af Codex, sjá hér.

Rannsóknin er á sviði skaðabótaréttar, vátryggingaréttar og félagsmálaréttar – en umrætt svið verður nefnt einu nafni bótaréttur. Rannsóknarverkefninu er ætlað að draga upp heildarmynd af  þeim reglum sem gilda um rétt til bóta, hvort sem slíkur réttur byggir á reglum um skaðabætur utan samninga, á vátryggingarsamningi eða á bótareglum félagsmálaréttar. 

Bótaréttur I felur í sér rannsókn á sviði skaðabótaréttar. Rannsóknin byggir á grunni þeirrar rannsóknar sem leit dagsins ljós árið 2005 í riti Viðars Más um íslenskan skaðabótarétt. Í verkefninu felst m.a. rannsókn á þeim mörg hundruð hæstaréttardóma sem fallið hafa frá 1. júlí 2005 (nálægt 100 á ári er snerta skaðabætur), þeirri löggjafarþróun sem átt hefur sér stað og nýrri fræðiskrifum, hérlendum sem erlendum. Á grundvelli þessara gagna verða dregnar ályktanir um gildandi rétt á umræddu sviði, á grundvelli hinnar lagalegu aðferðar, og markmið rannsóknarverkefnisins er að draga upp heildstæða mynd af þeim reglum sem gilda um skaðabætur utan samninga. 

Bótaréttur II felur í sér rannsókn á hinum almenna hluta vátryggingaréttar annars vegar og bótareglum félagsmálaréttar hins vegar. Með almennum hluta vátryggingarréttar er vísað til þeirra reglna sem gilda um gerð og túlkun vátryggingarsamninga, helstu skyldur vátryggjanda og vátryggingartaka/vátryggða, helstu tegundir vátrygginga og skilyrði þeirra fyrir greiðslu. Með bótareglum félagsmálaréttar er vísað til bótareglna almannatrygginga (þ.e. slysatrygginga, og sjúkratrygginga að því leyti sem sjúkdómur getur talist skaðabótaskyldur), þeirra reglna sem gilda um rétt til greiðslu örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum og réttar til nánar tiltekinna greiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Við rannsóknina verða m.a. rannsakaðir allir dómar Hæstaréttar er efnið varða, gildandi lagaákvæði og lögskýringargögn, og fræðirit í nágrannaríkjunum. Á grundvelli þessara gagna verða síðan dregnar ályktanir um gildandi rétt, með hinni lagalegu aðferð, og dregin upp heildstæð mynd af umræddum sviðum. 

Þátttakendur
Rannsóknin er samstarfsverkefni Einars Jónssonar prófessors og Viðars Más Matthíassonar, hæstaréttardómara og fyrrverandi prófessors við Lagadeild Háskóla Íslands.     

Fjármögnun
Verkefnið var að hluta til fjármagnað með því að Viðar Már var í launuðu rannsóknaleyfi frá Hæstarétti í sex mánuði á tímabilinu 15. október 2014 til 14. apríl 2015. Fræðasjóður Úlfljóts veitti styrk árið 2014 vegna Bótaréttar I.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is