Háskóli Íslands

Samstarf við Lagadeild Oslóarháskóla og norsku sjóréttarstofnunina

Lagadeild Háskóla Íslands og Lagadeild Oslóarháskóla (norska sjóréttarstofnunin) hafa ritað undir yfirlýsingu um samstarf við rannsóknir á sviði norðurslóðaréttar. Samstarfið lýtur nánar tiltekið að lagalegum og þverfaglegum rannsóknum í norðurslóðarétti með áherslu á hafnir, sjóflutninga og aðra atvinnustarfsemi sem snertir jafnt hagsmuni Íslands og Noregs á norðurslóðum. Um er að ræða alhliða samstarf sem nær m.a. yfir ráðstefnur, rannsóknarferðir og upplýsingaskipti á báða bóga. 

Samstarfsyfirlýsingin er afrakstur af ferð sem farin var á vegum Lagadeildar/Lagastofnunar til Oslóarháskóla í nóvember 2017. Þar héldu Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst kynningu á rannsóknarverkefni Lagastofnunar um innviði og atvinnustarfsemi á norðurslóðum, fyrir hópi fræðimanna við Lagadeild Oslóarháskóla og norsku sjóréttarstofnunina. Í kynningunni var fjallað um helstu markmið og viðfangsefni rannsóknarverkefnisins, einkum erlent eignarhald á höfnum og hver þróunin hefur verið í þeim efnum hér á landi og víðar. Almennar upplýsingar um umrætt rannsóknarverkefni Lagastofnunar má finna hér.

Lagadeild og Lagastofnun hlakka til að starfa með Lagadeild Oslóarháskóla á þeim sviðum sem að framan greinir og að efla og viðhalda rótgrónum tengslum deildanna tveggja til framtíðar litið.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is