Háskóli Íslands

Netöryggi. Stafrænn veruleiki – lagaleg álitaefni

Lagastofnun og samstarfsaðilar stóðu nýlega fyrir tveimur fræðiviðburðum í húsakynnum Háskóla Íslands, annars vegar opnum fundi um netöryggismál og hins vegar ráðstefnu um stafrænan veruleika.

Fyrrnefndi viðburðurinn, opinn fundur um netöryggismál, var haldinn í samstarfi við Fulbright stofnunina og Bandaríska sendiráðið á Íslandi, þann 18. maí sl. í Odda stofu 101. Fulbright sérfræðingurinn Eileen Decker fjallaði þar um ógnir sem steðja að netöryggi, lagaleg viðbrögð og hvaða lærdóm má draga af þeim. Eileen er lögfræðingur að mennt með víðtæka reynslu, m.a. var hún aðstoðarborgarstjóri Los Angeles og var þá með heimavarnarmál á sinni könnu. Hún hefur einnig gegnt stöðu alríkissaksóknara (United States Attorney) og kennir námskeið um netöryggismál við University of Southern California. Jill Esposito, staðgengill sendiherra Bandaríkjanna, opnaði fundinn. Þá hélt erindi Sigurður Emil Pálsson, formaður hins íslenska netöryggisráðs, um stöðu Íslands í netöryggismálum, en lokaorð flutti Belinda Theriault, framkvæmdastjóri Fulbright stofnunarinnar. Fundarstjóri var Ása Ólafsdóttir, formaður stjórnar Lagastofnunar.

Síðarnefndi viðburðurinn, ráðstefna um stafrænan veruleika, var haldinn í samstarfi við Háskólann í Sussex, þar á meðal Maríu Rún Bjarnadóttur doktorsnema í lögfræði við þann háskóla. Ráðstefnan fór fram 13. júní í Lögbergi stofu 101 og stóð yfir í tæpar fjórar klukkustundir. Hinn stafræni veruleiki hefur haft í för með sér samfélagslegan ávinning og framfarir í viðskipum, samskiptum og á flestum sviðum hins daglega lífs. Þetta hefur þau áhrif að geirar samfélagsins á borð við fjölmiðla og fjármálastarfsemi hafa tekið miklum breytingum á skömmum tíma. Þessar öru breytingar hafa falið í sér ýmsar lagalegar áskoranir bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi og væru þær til umfjöllunar á ráðstefnunni. Framsögumenn voru Dr. Chris Marsden, Dr. Andres Guadamuz, Dr. Melaine Dulong De Rosnay, Dr. Andrea M. Matwyshyn, Dr. Nico Zingales og María Rún Bjarnadóttir. Eftir erindin var boðið til móttöku með léttum veitingum.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is