Háskóli Íslands

Rafrænt lögfræðiorðasafn gefið út

Nýverið var rafrænu lögfræðiorðasafni hleypt af stokkunum og það gert aðgengilegt á vefsíðu stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (Árnastofnun). Lögfræðiorðasafnið er hluti af Íðorðabanka Árnastofnunar og vefgáttinni Málinu (málið.is). Orðasafnið er afrakstur samstarfsverkefnis Lagastofnunar og Árnastofnunar sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna og ber heitið Lögfræðiorðabók og myndun nýrra íðorða í lögvísindum.

Rafræna lögfræðiorðasafnið er að stofni til byggt á ritinu Lögfræðiorðabók: með skýringum, sem gefið var út á prenti árið 2008 (ritstj. Páll Sigurðsson, prófessor emeritus, og útg. Bókaútgáfan Codex). Vinna við uppfærslu orðabókarinnar og rafræna útgáfu hennar hófst vorið 2019, í kjölfar þess að Ása Ólafsdóttir, prófessor við Lagadeild HÍ og formaður stjórnar Lagastofnunar, ásamt Ágústu Þorbergsdóttur, málfræðingi hjá Árnastofnun, hlutu fyrrnefndan styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að vinna að útgáfu rafræna lögfræðiorðasafnsins. Laganemi við Lagadeild HÍ, Jón Sigurðsson Nordal, sá um uppfærslu og uppsetningu orðasafnsins í samstarfi við starfsmenn Árnastofnunar. 

Mynd: Páll Sigurðsson, prófessor emeritus, og Jón Sigurðsson Nordal, laganemi, í hófi sem efnt var til í tilefni af útgáfu lögfræðiorðasafnsins og fleiri orðabanka á vegum Árnastofnunar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is