Háskóli Íslands

Hlutverk og starfsemi

LögbergLagastofnun Háskóla Íslands er vísindaleg rannsóknastofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands og heyrir undir Lagadeild. Stofnunin hefur verið starfrækt frá árinu 1974 og starfar eftir reglum frá árinu 2010.

Stofnunin er vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs í lögfræði. Hlutverk Lagastofnunar er fyrst og fremst að stuðla og styðja við hvers konar rannsóknir og kennslu á sviði lögfræði.

Aðild að Lagastofnun eiga allir starfsmenn og sérfræðingar stofnunarinnar og Lagadeildar auk þeirra sem starfa tímabundið að einstökum rannsóknaverkefnum á vegum stofnunarinnar.

Samstarfssamningar hafa verið gerðir við lögmannsstofur, stofnanir og félagasamtök um að styrkja einstök rannsóknaverkefni og hafa rannsóknarniðurstöður verið birtar í Ritröð Lagastofnunar. Lagastofnun hefur fengið styrki til að halda úti þremur rannsóknastöðum við stofnunina frá árinu 2005, nú síðast frá Fjármálaeftirlitinu, sem styrkir stöðu eins sérfræðings í tvö ár frá 1. janúar 2014.

Lagastofnun aðstoðar starfsmenn Lagadeildar við styrkumsóknir, umsýslu rannsóknaverkefna og önnur verkefni sem tengjast rannsóknum í lögfræði, svo sem ráðstefnur, málþing og opna fundi. Stofnunin sinnir útgáfu til að birta rannsóknaniðurstöður og kynnir rannsóknir Lagadeildar í samvinnu við kynningarstjóra Félagsvísindasviðs.

Þá sinnir stofnunin lögfræðilegum þjónusturannsóknum á borð við álitsgerðir og skýrslur og stendur fyrir endurmenntunarnámskeiðum fyrir lögfræðinga, lögmenn og aðra sérfræðinga. Lagastofnun hefur auk þess tekið að sér fyrir Alþingi og innanríkisráðuneyti að semja og útbúa allt kynningarefni vegna þeirra þriggja þjóðaratkvæðagreiðslna  sem haldnar hafa verið á Íslandi árin 2010, 2011 og 2012.

Ritröð Lagastofnunar hefur verið gefin út af stofnuninni frá árinu 2005 og hafa málstofur og fundir verið haldnir í tengslum við útgáfuna.

Tvær rannsóknastofur starfa á vettvangi Lagastofnunar, í Evrópurétti og umhverfis- og auðlindarétti eins og nánar er fjallað um annars staðar á þessari heimasíðu.

Stjórn Lagastofnunar er skipuð fjórum kennurum lagadeildar auk eins fulltrúa nemenda, sem tilnefndur er af Orator, félagi laganema.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is