Háskóli Íslands

Samkeppnisréttur fyrir stjórnendur fyrirtækja - Bann við samráði keppinauta og misnotkun markaðsráðandi stöðu

Tími:  29. janúar 2015, kl. 16:30-19:30.
Skráningarfrestur:  26. janúar 2015.
Kennari:  Ásgeir Einarsson LL.M, lektor við Lagadeild HÍ og aðstoðarforstjóri  Samkeppniseftirlitsins.
Staðsetning:   Lögbergi, stofu 201.

                          Skráning - Námskeiðið er fullbókað

Umsögn Orra Haukssonar forstjóra Símans um námskeið Lagastofnunar í samkeppnisrétti:

Það er nauðsyn þeim sem starfa við fyrirtækjarekstur á Íslandi að hafa skilning á samkeppnislögum og sjónarmiðum eftirlitsaðila um framkvæmd laganna. Í flestum atvinnugreinum starfa tiltölulega fá innlend fyrirtæki og samkeppnisréttur býður upp á fjölmörg túlkunaratriði. Námskeið Lagastofnunar Háskóla Íslands í samkeppnisrétti, kennd af lektor í samkeppnisrétti við Lagadeild Háskóla Íslands sem einnig er aðstoðarforstjóri Samkeppniseftirlitsins, eru gagnleg fyrir alla sem vilja tryggja að fyrirtæki þeirra fari að samkeppnislögum og gefa góða innsýn í hug eftirlitsaðila til framkvæmdar samkeppnislöggjafar á Íslandi. 

Um námskeiðið
Í 11. gr. samkeppnislaga er lagt bann við hvers konar misnotkun á markaðsráðandi stöðu og er ákvæðið efnislega samhljóða banni EES réttarins. Það hefur mikla þýðingu fyrir fyrirtæki ef það telst markaðsráðandi. Þá leggjast á það sérstakar skyldur og það getur sætt viðurlögum vegna háttsemi sem er fyllilega heimil þegar um er að ræða fyrirtæki sem ekki eru markaðsráðandi.

Í 10. gr. samkeppnislaga er lagt bann við hvers konar samráði milli fyrirtækja sem er til þess fallið að raska samkeppni. Eru þessi ákvæði í samræmi við bann EES réttarins. Samráð um verð og aðra mikilvæga samkeppnisþætti felur að jafnaði í sér háttsemi sem er afar skaðleg fyrir bæði neytendur og atvinnulífið. Geta slík brot leitt til þess að fyrirtæki séu beitt stjórnvaldsviðurlögum og stjórnarmenn eða starfsmenn refsingu.

Skiptir því miklu að starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja og þekki vel þessi svið samkeppnisréttarins.

Á námskeiðinu verður leitast við draga upp skýra mynd af inntaki 10. og 11. gr. samkeppnislaga. Verða helstu meginreglur skýrðar og þýðing þeirra í daglegri starfsemi fyrirtækja dregin fram. Er námskeiðinu þannig ætlað að auðvelda þátttakendum að greina og koma í veg fyrir möguleg brot á samkeppnislögum.

Eftirfarandi verður m.a. tekið til skoðunar:

  • Hvernig eru markaðir skilgreindir í samkeppnismálum?
  • Hvenær er fyrirtæki markaðsráðandi?
  • Getur fyrirtæki sem ekki er með mestu markaðshlutdeildina verið markaðsráðandi?
  • Hvað þýðir það í raun að vera markaðsráðandi?  
  • Hver eru skilyrði þess að verðlækkun markaðsráðandi fyrirtækis teljist ólögmæt?
  • Getur markaðsráðandi fyrirtæki misnotað stöðu sína með hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum?
  • Hvað ber almennt að varast í samskiptum við keppinauta?
  • Getur fyrirtæki brotið af sér við það eitt að taka við tölvupósti frá keppinauti þar sem það er hvatt til að hækka verð? 
  • Er það ólögmætt ef heildsali A flytur smásala B þau boð frá smásala C að smásöluverð á tiltekinni vöru sé of lágt
  • Hvenær eru skipti á upplýsingum milli keppinauta eða miðlun upplýsinga innan hagsmunasamtaka fyrirtækja ólögmæt?
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is