Háskóli Íslands

Lagaheimild reglugerða

Tími: Föstudagur 8. maí 2015, kl. 8.30-12.30.
Skráningarfrestur: Mánudagur 4. maí 2015
Kennari: Dr. juris Páll Hreinsson, dómari við EFTA-dómstólinn og gestaprófessor við Lagadeild Háskóla Íslands
Staðsetning:  Hekla, Hótel Sögu
Verð: Kr. 25.000.-, innifalið er morgunmatur og fjölritað handrit um efnið

Námskeiðið verður haldið í Heklu, Hótel Sögu. Boðið verður upp á morgunmat á hlaðborði og eru þátttakendur beðnir um að mæta ekki seinna en 8.15 til að námskeiðið geti byrjað á réttum tíma.                      

Skráning - Námskeiðið er orðið fullt.
Sendið tölvupóst á: lagastofnun@hi.is ef þið óskið eftir að fara á biðlista.

Um námskeiðið
Til grundvallar námskeiðinu liggur rannsókn á álitum umboðsmanns Alþingis á 26 ára starfstíma embættisins og svo á dómum Hæstaréttar Íslands frá sama tímabili, þ.e. 1. janúar 1988 til 31. desember 2014. Markmið námskeiðsins er þannig að draga fram hver gildandi réttur er á þessu sviði. Niðurstöður þessara rannsókna eru síðan settar inn í samhengi fræðanna og þær gerðar aðgengilegar í fyrirlestrinum.

Á námskeiðinu verður afhent handrit byggt á þessum rannsóknum. Af rannsóknarefninu virðist ljóst að það er víða pottur brotinn, ekki síst þar sem það eru sömu axarsköftin sem verið er að gera aftur og aftur!

Markhópur
Námskeiðið er sérstaklega skipulagt fyrir lögmenn, lögfræðinga og aðra sérfræðinga, sem starfa að verkefnum sem tengjast setningu reglugerða og annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla hjá ríki og sveitarfélögum og ennfremur þá, sem þurfa í störfum sínum að túlka og beita almennum stjórnvaldsfyrirmælum, þ.m.t. að taka afstöðu til þess hvort ákvæði tiltekinnar reglugerðar hafi næga lagastoð.

Nánar um námskeiðið
Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar eru það Alþingi og forseti Íslands sem fara með löggjafarvaldið. Af þessum sökum hefur verið talið að ráðherrar, sem handhafar framkvæmdarvalds, geti almennt ekki sett almenn stjórnvaldsfyrirmæli, sem snerta réttindi og skyldur almennings, nema að hafa til þess viðhlítandi lagaheimild frá löggjafanum. Í fyrirlestrinum mun verða varpað ljósi á það hvaða takmörk eru á valdheimildum ráðherra til þess að setja reglugerð. Rannsóknarspurningarnar sem svarað verður í fyrirlestrinum er hægt að orða svo að annars vegar sé leitað svara við því hvenær reglugerð hafi ekki verið talin hafa viðhlítandi lagaheimild. Í því sambandi er leitað svara við því hversu skýr lagaheimild þurfi að vera og hvernig hún þurfi að vera útfærð svo íþyngjandi ákvæði reglugerða verði talin hafa næga lagastoð. Hins vegar er fjallað um það hvenær ákvæði reglugerða hafa verið talin ganga í berhögg við lög. Í því sambandi kemur í ljós að hægt virðist vera að flokka alla dóma Hæstaréttar og álit umboðsmanns í fimm flokka þegar litið er til þess hvernig ákvæði reglugerðar hefur brotið í bága við lög. Einnig eru flokkaðar þær ástæður sem stjórnvöld hafa borið fyrir sig hvers vegna slík ákvæði hafa verið sett í reglugerð. Þá verður farið yfir nokkrar lagaáskilnaðarreglur stjórnarskrárinnar og þær bornar saman við hina almennu lögmætisreglu og því svarað hvort mismunur sé á þeim kröfum sem gerðar eru til lagaheimilda reglugerða. Loks verður fjallað um það hvenær almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins leiða til þess að gera verður auknar kröfur til skírleika lagaheimilda reglugerða.

Páll Hreinsson er cand.jur. frá Lagadeild Háskóla Íslands 1988, lagði stund á framhaldsnám í stjórnsýslurétti og stjórnsýslufræðum við Kaupmannahafnarháskóla 1990-1991 og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2005. Páll var fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík 1988-1991 og aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis frá 1991-1998. Hann starfaði sem stundakennari við Lagadeild HÍ 1989-1996 er hann var skipaður aðjúnkt, varð dósent 1997 og prófessor 1999. Hann var varaforseti Lagadeildar 1. júlí 2002 til 30. júní 2005 og forseti deildarinnar 1. júlí 2005 til 1. september 2007, er hann tók við skipun í embætti hæstaréttardómara. Páll var skipaður formaður rannsóknarnefndar Alþingis samkvæmt lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdum atburðum, og var í leyfi frá störfum hæstaréttardómara meðan nefndin starfaði. Hann tók aftur sæti í hæstarétti 1. júlí 2010 til 15. september 2011 er hann var skipaður dómari við EFTA-dómstólinn. Páll hefur ennfremur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum öðrum í þágu hins opinbera, var m.a. skipaður formaður tölvunefndar 1999 og var formaður stjórnar Persónuverndar 2001 þar til hann tók við embætti hæstaréttardómara.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is