Háskóli Íslands

Rannsóknastofa í norðurslóðarétti

Hlutverk rannsóknastofunnar er að efla og stunda rannsóknir á lagalegum þáttum norðurslóða. Rannsóknastofan er þverfræðileg og leitast í störfum sínum við að eiga samstarf við aðrar fræðigreinar, þar á meðal hagfræði.

Stjórn rannsóknastofunnar skipa Eyvindur G. Gunnarsson prófessor (egg@hi.is), forstöðumaður stofunnar, dr. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor (adalheid@hi.is), Ása Ólafsdóttir prófessor (asaolafs@hi.is), Friðrik Árni Friðriksson Hirst framkvæmdastjóri Lagastofnunar (faf@hi.is) og Stefán Már Stefánsson prófessor (sms@hi.is).

Helstu viðfangsefni rannsóknastofunnar

Árið 2016 hlutu Lagadeild og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands styrk til sameiginlegs rannsóknarverkefnis um innviði og atvinnustarfsemi á norðurslóðum. Aðalstyrkur verkefnisins var veittur á fjárlögum ársins 2016 en einnig hlaut verkefnið styrk úr Rannsóknasjóði Viðskiptaráðs Íslands sama ár. Lögfræðihluti verkefnisins færðist til rannsóknastofu í norðurslóðarétti við stofnun stofunnar í júní 2017.

Rannsóknarverkefnið snýr að laga- og rekstrarumhverfi hafna landsins og tengslum þeirra við stefnumörkun Íslands á norðurslóðum. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi hafna fyrir íslenskan efnahag og samfélag. Hafnir eru lykilþáttur í samgöngukerfi landsins og ráðstöfunum til að vernda hafið gegn mengun og tryggja siglingaöryggi. Hafnir eru um leið veigamikið atriði í hagsmunagæslu Íslands á norðurslóðum og stefnumörkun á því sviði, en fyrirséð er að vöxtur verði í hafnarstarfsemi hér á landi samhliða auknum efnahagsumsvifum á norðurslóðum. Slík hafnaruppbygging er þegar í burðarliðnum á vegum stjórnvalda og fjárfesta þar sem reynir á ýmsa þætti í regluverki hafnarstarfsemi. Meðal þeirra eru reglur um rekstrarform, eignarhald, gjaldtöku og skattskyldu hafna, sem og lagaskyldur hafna á sviði hafverndar og siglingaöryggis. Tilgangur rannsóknarverkefnisins er að lýsa gildandi lagareglum um þessi atriði og leggja mat á hvort regluverkið leggi nægilega traustan grundvöll að þeirri uppbyggingu sem framundan er og hagsmunum Íslands í því sambandi.  

Fréttir:

Erindi á Hringborði norðurslóða október 2017

Innviðir og atvinnustarfsemi á norðurslóðum

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is